Össur og forsetinn í Katar með Kaupþingi.

 Gömul frétt af vefslóð forsetans. Góða skemmtun !

Er þessum mönnum treystandi Sigmundur Davíð ?

"Náin samvinna Íslands og Katars

Opinber heimsókn forseta sem hófst í Katar síðdegis í gær hefur þegar skilað víðtækum árangri. Í viðræðum forseta og emírsins af Katar, Sheikh Hamad Bin Khalifa Al Thani, kom fram eindreginn vilji þjóðarleiðtoga Katars til að kanna rækilega möguleika á náinni samvinnu við Íslendinga á sviði banka- og fjármála, heilbrigðismála og rannsókna í læknavísindum, nýtingu hreinnar orku, háskólamenntunar og rannsókna ásamt því að þróa samræður um hvernig smærri ríki eins og Ísland og Katar gætu í sameiningu haft áhrif á stefnur og strauma á alþjóðavísu.  Myndir. Fréttatilkynning.

 Katar er meðal auðugustu ríkja í veröldinni. Tekjur þeirra frá gasauðlindum eru nú þegar orðnar ein öflugasta fjármagnsuppspretta í heiminum. Þær fjárhæðir sem landið hefur til ráðstöfunar í fjárfestingar og verkefni víða um heim nema árlega margföldum þjóðarútgjöldum þessa auðuga ríkis.

 Í viðræðum forseta Íslands og emírsins af Katar og á fundum iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar og orkumálaráðherra Katars var farið yfir fjölmörg verkefni sem íslenskir bankar og fyrirtæki, háskólar og rannsóknastofnanir gætu komið að. Leiðtogar Katars vilja vinna hratt að þessum verkefnum og óskuðu eftir því að á næstu sex mánuðum næðust niðurstöður varðandi ákveðin sameiginleg verkefni, meðal annars á sviði fjárfestinga. Einnig yrði komið á reglubundnum tengslum milli háskóla og rannsóknastofnunar Katars, Qatar Foundation, og vísindasamfélagsins á Íslandi. Innan þessarar stofnunar eru allir helstu háskólar og rannsóknastofnanir landsins, og mun hún senda fulltrúa sína til Íslands á næstu vikum.

 Leiðtogar Katars lögðu áherslu á að þessi nýja samvinna Íslands og Katars væri í anda stefnunnar um samstarf smárra ríkja. Nauðsynlegt væri að slík ríki beittu sér fyrir nýjungum á alþjóðavettvangi, bæði í viðskiptum, vísindum og alþjóðlegri stefnumótun. Ákveðið var að forseti Íslands og emírinn af Katar hefðu með sér náið samráð á næstu vikum og mánuðum. Jafnframt lýsti emírinn áhuga á að koma í heimsókn til Íslands næsta sumar.

 Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra Katars Yousef Kamal undirrituðu fyrr í dag rammasamning um samstarf ríkjanna á sviði efnahags-, viðskipta- og tæknimála og jafnframt samkomulag um að greiða fyrir samskiptum á sviði ferðamála.

 Opinber heimsókn forseta Íslands og Dorrit Moussaieff forsetafrúar hófst með hátíðlegri móttökuathöfn á flugvellinum í Katar síðdegis í gær þar sem emírinn af Katar og kona hans Sheikha Mozah tóku á móti hinum íslensku gestum. Forsetahjónin sátu svo í gærkvöldi kvöldverð ásamt emírshjónunum og dóttur þeirra þar sem ítarlega var rætt um tækifæri þjóðanna til árangursríkrar samvinnu á komandi árum.

 Í morgun var formlegur viðræðufundur forseta og emírsins ásamt íslensku sendinefndinni og fjölmörgum ráðamönnum Katars þar sem nánar var farið yfir einstök verkefni og næstu skref ákveðin. Að því loknu efndi emírinn til hádegisverðar til heiðurs forseta og íslensku sendinefndinni, bæði opinberu nefndinni og fulltrúum íslenskra fyrirtækja.

 Forseti heimsótti nýja skrifstofu Kaupþings í Doha, höfuðborg Katars en Kaupþing er fyrsti norræni bankinn sem opnar skrifstofu í landinu. Þá kynnti forseti sér starfsemi Fjármálamiðstöðvar Katars.

 Í kvöld býður fjármálaráðherra Katars, Yousef Kamal, til  umræðufundar um tækifæri smárra ríkja í framtíðinni og munu sækja hann fjölmargir forystumenn úr viðskiptalífi Katars auk íslensku sendinefndarinnar og fulltrúa þeirra íslensku fyrirtækja sem fylgja forseta í þessari opinberu heimsókn.



© Forseti Íslands 2007
Skrifstofa forseta Íslands er á Staðastað, Sóleyjargötu 1, 101 Reykjavík. Sími: 540 4400 - Fax: 562 4802 - Netfang: forseti@forseti.is "

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband